Orlov-brokkarar eru elsta ræktaða kyn brokkhesta í heiminum í dag. Ræktun þeirra hóft seint á 18. öld, þegar herforingi úr hirð Katrínar miklu keisaraynju í Rússlandi, að nafni Alexei Orlov Tschesmensky, einsetti sér að rækta glæsilega, hágenga, ferðmikla og þolna brokkhesta sem myndu henta til notkunar við rússneskar aðstæður sem vagn- og sleðahestar.
Til þess að ná fram markmiði sínu, blandaði hann arabískum hestum saman við dönsk og hollensk hrossakyn. Með skipulegri skyldleikarækt og ströngu úrvali tókst Orlov á tiltölulega stuttum tíma að skapa nýtt hestakyn, sem við stofnun ættbókar fyrir kynið árið 1865 var nefnt eftir honum Orlov-brokkarinn.
Þetta nýja hestakyn náði strax í upphafi 19. aldar mikilli útbreiðslu sem vagnhestar og á tímabili voru þeir ósigrandi í kerruakstri. Á seinni hluta 19. aldar komu fram léttbyggðari og enn fljótari brokkhestakyn sem leystu Orlov-brokkarana á hlaupabrautinni af hólmi.
Orlov-brokkarar eru um 160-165 sm á herðakamb og aðallega gráir, brúnir eða jarpir á litinn. Rauður litur kemur fyrir. Þeir eru harðgerðir, taugasterkir, þolnir og langlífir og búa auk þess yfir framúrkarandi hæfileikum sem vagn- og sleðahestar sem einnig geta hentað vel til reiðar. Á hlaupabrautinni getur Orlov-brokkarinn náð allt að 52 km/klst hraða.
Einn frægasti einstaklingur þessa hestakyns er án efa stóðhesturinn Klóki-Hans (1895-1916).
HEIMILDIR:
Sambraus, H.H. Atlas der Nutztierrassen, Eugen Ulmer Gmbh & Co. 1986, bls. 163.
www.wikipedia.org
www.pferde-pferderassen.de