Kærkomin hvíld í skjólgóðum lundi. Mynd/Karl Christian Nielsen
Á þeim tíma sem frásögnin um tvíburafolöldin Hrepp og Stjóra gerðist, voru fjallagrös (Catraria islandica) drjúg búbót á íslenskum sveitaheimilum. Allt frá tímum landnáms voru fjallagrös ásamt æðardúni og veiðiréttindum í ám metin til verðmætra jarðarhlunninda. Sérstakar grasaferðir voru farnar á sumrin, til að safna grösunum, venjulega í júní áðuren sláttur hófst. Yfirleitt voru unglingsstúlkur ásamt eldri konum sendar í þessar ferðir.
Grösin voru oftast tínd í þoku eða röku veðri, þar sem þá er auðveldara að losa þau frá lyngi og öðrum gróðri. Í mjög þurru veðri var tínt á næturnar þegar áfall var mest. Ef veður leyfði voru fjallagrösin síðan hreinsuð og breidd út til þerris við tjöldin. Milli þess sem safnað var sat fólkið saman og stytti sér tímann við að segja sögur, fara með rímur eða syngja.
Ferðirnar gátu varað allt frá nokkrum dögum og upp í mánuð. Hestar voru notaðir til að flyta grasapokana til byggða. Oft var karlmaður með í förinni til að aðstoða konurnar við erfiðari verkin eins og t.d. að binda pokana upp á hrossin. Þegar heim var komið voru fjallagrösin endanlega þurrkuð, möluð og geymd í tunnum til vetrarins.
Fjallagrös voru m.a. notuð til að drýgja hveiti til bakstra eða þeim var blandað saman við blóðmör, skyr og mjólkurgrauta. Lækningamáttur grasanna var þekktur og ýmis seyði soðin úr þeim, sem þóttu góð gegn hálsbólgu, kvefi eða öðrum kvillum í öndunarfærum og gegn magakveisum.
Heimild: Jónas Jónasson frá Hrafnagili: Íslenskir þjóðhættir, útgáfuár 1945, bls. 64-66.