Vera Reber frá Lipperthof í Þýskalandi var á áttunda og níunda áratugnum einn af sigursælustu keppnisknöpum Þjóðverja og vann marga sigra á hestinum sínum Frosta frá Fáskrúðarbakka. Samtals tók hún þátt í fimm evrópu- og heimsmeistaramótum á honum og náði oft verðlaunasætum í skeiði, m.a. unnu þau til silfurverðlauna í 250 m skeiði á heimsleikunum í Spaarnwoude, í Hollandi árið 1993, en þá var Frosti orðinn 21 vetra!
Vera vann mikið við reiðkennslu á árum áður, en þurfti af heilsufarsástæðum að leggja reiðmennskuna á hilluna. Hún hefur þó ekki alveg getað slitið sig frá íslenska hestinum, því í dag fæst hún við að rækta hesta í smáum stíl.
Í eftirfarandi greinum segir Vera frá upphafi hestamennskunnar á Lipperthof, keppnisferli sínum með Frosta og veitir lesendum ómetanlega innsýn inn í tímabil, þegar reiðmennska á íslenskum hestum var að þróast í Þýskalandi.
Þess má geta að Vera er yngri systir hins kunna knapa og ræktunarmanns Uli Reber frá Lipperthof.