Ég hef oft velt því fyrir mér, þegar ég sé hesta framkvæma ótrúlegustu hluti á hestasýningum, hvernig var eiginlega hægt að kenna þeim þetta og hvar liggja mörkin. Mínum hestum hef ég ekki kennt annað en nauðsynlegustu „umgengnisreglur“ og bendingar til að geta notið þeirra m.a. í reiðtúrum. Eigi að síður hef ég lengi haft áhuga á atferli og sálarlífi hrossa. Samspil hinna svonefndu hestahvíslara og hrossa hefur oft og iðulega vakið ómælda aðdáun mína.
Nýlega rakst ég á mjög áhugaverða frásögn um hest og eiganda hans sem toppar allt sem ég hef séð, heyrt eða lesið um. Ég var svo heltekin af þessari frásögn að ég hætti ekki fyrr en ég var búin að skoða allt efni sem ég gat komist yfir um hrossið.
Og ég er ekki sú eina sem átti erfitt með að trúa því sem ég las, því hesturinn „Klóki Hans“ eða “Kluger Hans“ eins og hann hét á þýsku og eigandi hans Wilhelm von Osten voru á allra vörum í Berlínarborg árið 1904.
Þó íslenskir hestar séu ekki í aðalhlutverki í þessari frásögn, finnst mér efni hennar mjög áhugavert og eiga erindi til lesenda HestaSögu. Ég hef tekið saman grein um hestinn „Klóka Hans“ sem birtist í þremur hlutum hér á HestaSögu!