Hversu fljótir hestar eru að laga sig að nýjum aðstæðum og læra má sjá á eftirfarandi sögu sem einn af lesendum Hestasögu sendi inn á dögunum


Ég dýrka hesta og á sjálfur sex góð reiðhross. Þetta eru reyndar ekki keppnishestar, enda er ég í fullri vinnu og stunda bara hestamennsku í frístundum mínum. En það gefur mér mikið að geta stússað við hrossin mín eftir vinnu og farið í góða útreiðatúra mér til afþreyingar á sumrin.

Hér er stutt saga um eina af hryssunum mínum sem heitir „bara“ Stjarna og er frá Miðkoti. Hún er undan fyrstu verðlaunahestinum Pilti frá Sperðli og hryssu sem hét Maístjarna frá Hvítanesi.

Ég eignaðist Stjörnu þegar hún var 7 vetra gömul og er hún fyrsti hesturinn sem ég eignaðist. Ég var þá alveg óvanur hestum og rétt að byrja í hestamennskunni. Ég var hreint ekki viss um, að Stjarna myndi henta fyrir mig þar sem hún var svo ofsalega viljug og átti erfitt með að standa kyrr. Ég komst líka fljótlega að því að hryssan var líka alveg bráðgáfuð. Mér hefur stundum jafnvel fundist hún hreinlega hafa mannsvit.

Þó Stjarna væri ör og viljug náðum við fljótt ljómandi vel saman. Hún var vel tamin og í alla staði mjög skemmtilegt reiðhross. Ég á henni margt að þakka og lærði á þessum tíma heilmikið af henni.

Hún hefur allan gang og er líka flugvökur. Mér finnst stórkostlega gaman að ríða skeið. Ég var fljótur að komast uppá lagið með skeiðið, því það er auðvelt að leggja Stjörnu. Þegar við tókum skeiðspretti saman fékk ég alltaf óstjórnlega gleðitilfinningu og var með gæsahúð af geðhræringu allan sprettinn. Það er ómetanlegt að fá að njóta slíkra stunda á hestbaki.

Ég gleymi aldrei deginum sem ég fékk Stjörnu. Ég setti hana strax á hús daginn sem hún kom og fór svo í stuttan reiðtúr á henni daginn eftir. Allt gekk eins og í sögu hjá okkur og við komum bæði afskaplega glöð og ánægð tilbaka úr reiðtúrnum.

Ég stoppaði hana við hesthúsdyrnar þar sem ég fór af baki, opnaði hurðina og teymdi hana inn í húsið. Daginn eftir fór ég aftur í reiðtúr á Stjörnu minni og gerði nákvæmlega það sama og fyrri daginn, sem sagt stoppaði við hesthúsdyrnar, fór af baki og setti hana inn.

Þriðja daginn sem ég reið út á henni og stoppaði að loknum reiðtúrnum við hesthúsdyrnar, gerði ég mig líklegan til að gera allt eins og áður. En áðuren ég gat stigið af baki tók Stjarna uppá því að bíta í handfangið og ýta svo hurðinni upp með snoppunni.

Það er alveg stórkostlegt að verða vitni að því, að dýr þurfi aðeins að sjá hluti gerða tvisvar til að geta svo framkvæmt þá síðan af eigin frumkvæði.

Elvar Reykjalín

Passar við þessa sögu:

MÓSA MINNING

Sagan sem á eftir fer birtist fyrst árið 1931 í tímaritinu „Dýraverndarinn“ og fjallar um það hverning hesturinn Mósi bjargar lífi ungs drengs á sveitaheimili fyrir u.þ.b. 100 árum.

LESA MEIRA

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Senda inn sögu:

Á þessari vefsíðu er ætlunin að bjóða upp á breitt úrval af sögum og frásögnum af hestum úr öllum áttum.

Við leggjum áherslu á listræna hönnun síðunnar þar sem samspil texta og mynda gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Þar af leiðandi gætum við þurft að gera einhverjar breytingar á innsendu efni. Hins vegar verða engar breytingar gerðar nema með samþykki viðkomandi aðila. Áður en sagan er birt á vefsíðunni er hún send til höfundarins til yfirlestrar og ekki birt fyrren búið er að fá samþykki viðkomandi fyrir breytingunum.

PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR
SAGAN ÞÍN

Best er að þú vistir textann þinn sem World skjal og sendir það ásamt myndum í viðhengi tölvupóstins til okkar. Athugið að senda aðeins inn myndir sem má nota á internetinu eða myndir sem þið eigið höfnundaréttin að.

upplýsingar um söguna