Mig langar til að segja ykkur frá atburði sem gerðist fyrir langa löngu, en ég man það samt eins og þetta hafi gerst í gær. Ykkur finnst kannski erfitt að trúa frásögninni, en ég get fullvissað ykkur um að hún er sönn. Við erum búin að hlægja mikið að þessum mistökum, en aðeins vegna þess að allt fór að lokum vel. Ég var ótrúlega heppin, því þetta hefði getað farið á allt annan veg!

Fyrir um það bil fjörutíu árum – eru virkilega liðnir nokkrir áratugir síðan þetta gerðist? – var ég tiltölulega nýbyrjuð að vinna á búgarði með íslensk hross í Suður-Þýskalandi. Í þá daga voru íslenskir hestar ekki búnir að ná slíkum vinsældum sem þeir hafa í dag og lítið um stóra búgarða eins og þann sem ég starfaði hjá.

Í einu af hólfunum voru rúmlega fimmtíu hross í öllum mögulegum litum, en það er einmitt það sem gerir íslenska hrossakynið svo skemmtilega litskrúðugt og fjölbreytt. Flest hrossanna voru þó rauð, jörp eða brún.

Ég var í þá daga frístundareiðmanneskja og er það reyndar ennþá, nema hvað að ég bjó ekki yfir eins mikilli reynslu og ég hef í dag. En ég bætti það upp með óbilandi áhuga á hrossum.

Það var mikið að gera á búgarðinum og því miður ekki mikill tími til útreiða. Yfirleitt gat ég ekki riðið út nema á frídögunum mínum sem voru ansi fáir eða að ég skrapp í stuttan afslappandi reiðtúr eftir langan vinnudag á kvöldin.

Brún hross án auðkenna af sama kyni og á svipuðum aldri geta við fyrstu sýn verið nokkuð áþekk að útliti.

Á meðan hryssan mín var veik, fékk ég leyfi til að taka stundum gamlan reiðskólahest og fara í reiðtúra á honum eftir vinnu.

Einn góðan sumardag var yfirmaður minn að búa sig undir að fara á hestamannamót ásamt nokkrum öðrum starfsmönnum. Ég spurði hann hvaða hest ég mætti fá á meðan þau væru í burtu. Hann hugsaði sig andartak um og hraðaði sér svo að stóra gerðinu með mig í eftirdragi, þar sem hann benti mér á hross í fjarska, sem stóð lítilsháttar afsíðis.

„Sérðu þennan brúna sem stendur þarna? Þetta er Óðinn. Hann er þægur og rólegur og hentar fyrir þig. Þú munt örugglega hafa gaman af honum!“ Og svo var hann aftur rokinn af stað því hann var að klára að undirbúa sig fyrir ferðina.

Ég hlakkaði til næsta dags, því ég var ákveðin í að fara í fyrsta reiðtúrinn á Óðni eftir vinnu. Vinnudagurinn var ansi erilsamur því það vantaði bæði yfirmanninn og nokkra samstarfsfélaga. Ég gat ekki beðið eftir að vinnudeginum lyki og ég gæti farið í afslappandi reiðtúr á Óðni.

En fyrstu kynni mín af Óðni voru allt önnur en afslappandi. Ég átti í stökustu vandræðum með að ná honum og þurfti að lokum að lokka hann með gulrót svo hann fylgdi mér út úr hólfinu. Ekki tók betra við þegar ég reyndi að kemba honum og leggja á hann hnakk.

Í litskrúðugu stóði er minni hætta á að víxla saman hrossum.

 „Aumingja karlinn“, hugsaði ég og fann til vorkunnar með honum. „Hann hefur sennilega þurft að umbera fjölmarga  byrjendur sem hafa barið fótastokkinn á honum og  togað óvægilega í taumana. Hann var sennilega heldur ekki sáttur við að nú átti að leggja á hann, á meðan hinir reiðskólahestarnir voru komnir í makindalegt frí.“

Óðinn sýndi greinilega að hann var ekki sáttur, virkaði eiginlega hálf óöruggur, jafnvel hræddur og hneggjaði stöðugt á félaga sína.

En ég lét það ekki hafa áhrif á mig, því ég þóttist vita ástæðuna fyrir þessum mótþróa hans og var búin að ákveða að gefast ekki upp. Ég hafði hlakkað til að komast í reiðtúrinn allan daginn og mér fannst ég líka eiga það skilið eftir erfiði dagsins.

Ég hvatti Óðinn ákveðin áfram og lét ekki eftir honum að snúa af við og ljúka þar með reiðtúrnum okkar.

Næsta dag gekk allt mun betur fyrir sig og leit helst út fyrir að hann væri farinn að skilja hvort okkar réði ferðinni í þessu máli og leyfði mér að leggja á sig mótþróalaust.

Í útreiðatúrnum var hann miklu auðveldari en fyrri daginn og lét betur að stjórn. Ég gat riðið frá búgarðinum svo að segja án mótþróa frá honum og hann hneggjaði minna á félaga sína en áður.

Þegar yfirmaður minn kom aftur heim frá hestamannamótinu, var ég búin að nálgast það ástand með Óðni, sem ég myndi kalla afslappandi reiðtúr. Og mér var meira að segja farið að þykja vænt um þennan litla mótþróabelg!

Nú tók aftur við dagleg rútína á búgarðinum. Næsta dag var hópur hrossa tekinn úr stóra hólfinu sem átti að fara í tamningu. Ég var yfir mig glöð að sjá að litli brúni klárinn „minn“ var þar á meðal. Fyrst í stað var ég ekkert að spá hvers vegna hann væri í þessum hópi en fékk svo bakþanka og spurði að lokum af hverju Óðinn væri í hópnum með unghrossunum. Það stóð ekki á svari frá yfirmanni mínum: „Þetta er ekki Óðinn heldur Hrafn!“

Ég starði skelfingu lostinn á hann, því mér varð á augabragði ljóst hvað hafði gerst. Ég hafði undanfarna daga verið að ríða út á unghrossi sem aldrei nokkurn tíman hafði verið átt nokkuð við, og auk þess aldrei borið manneskju áður á bakinu.

Við vorum í sjokki yfir þessu, en fljótlega var léttirinn yfir því að ekkert alvarlegt hafði komið fyrir og við skelltum upp úr af hlátri. Hlátur okkar laðaði aðra starfsmenn að sem hlógu með okkur þegar þeir fréttu af ruglingnum.

Af þessu atviki hef ég dregið minn lærdóm.

Á góðri stundu þegar minna var að gera fór ég með yfirmanni mínum út í stóra hólfið þar sem hann benti mér á fjölmörg atriði sem nota má til að aðgreina hross hvert frá öðru eins og t.d. blæbrigði feldsins sem er býsna mismunandi jafnvel hjá brúnum hrossum! Einnig er hægt að nota þykkt og lengd faxins og á hvora hliðina það fellur, augnlitur, sveipar á höfði, smá skrámur, gömul meiðsli og margt fleira.

Greinarhöfundur Doris að leggja af stað í útreiðartúr á hryssunni sinni Ninu og með hundinn Olli.

Eftir þessa reynslu var mér ljóst að það var ekki bara hrossið sem fékk óvænta tamningu á frekar ófagmannlegan hátt sem hafði lært mikið heldur líka ég. Eftir á að hyggja held ég að ég hafi lært meira af þessum misgáningi en hinn ferfætti vinur minn!!!

Upp frá þessu atviki horfi ég mun nákvæmar á hrossin og mér er ljóst að svipfar hrossa er mjög mismunandi og þessi ruglingur með brúnu folana myndi aldrei aftur koma fyrir mig því:

Það eru engir tveir hestar eins!

 Ps: alveg þar til að sá dagur rann upp að Hrafn (fyrir mér hét hann alltaf Óðinn) var seldur elti hann mig á röndum þegar ég birtist í gerðinu til að sækja annan hest. Stóra spurningin er hvort hann mundi eins vel og ég eftir fyrsta sameiginlega deginum okkar!


Doris Tenzer

þýtt úr þýsku

Passar við þessa sögu:

MÓSA MINNING

Sagan sem á eftir fer birtist fyrst árið 1931 í tímaritinu „Dýraverndarinn“ og fjallar um það hverning hesturinn Mósi bjargar lífi ungs drengs á sveitaheimili fyrir u.þ.b. 100 árum.

LESA MEIRA

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Senda inn sögu:

Á þessari vefsíðu er ætlunin að bjóða upp á breitt úrval af sögum og frásögnum af hestum úr öllum áttum.

Við leggjum áherslu á listræna hönnun síðunnar þar sem samspil texta og mynda gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Þar af leiðandi gætum við þurft að gera einhverjar breytingar á innsendu efni. Hins vegar verða engar breytingar gerðar nema með samþykki viðkomandi aðila. Áður en sagan er birt á vefsíðunni er hún send til höfundarins til yfirlestrar og ekki birt fyrren búið er að fá samþykki viðkomandi fyrir breytingunum.

PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR
SAGAN ÞÍN

Best er að þú vistir textann þinn sem World skjal og sendir það ásamt myndum í viðhengi tölvupóstins til okkar. Athugið að senda aðeins inn myndir sem má nota á internetinu eða myndir sem þið eigið höfnundaréttin að.

upplýsingar um söguna