Þann 6. janúar kveður Kertasníkir síðastur þeirra bræðra og bólar ekki aftur á honum eða bræðrum hans fyrren um næstu jól.
Lengi var það trú manna að huldufólk væri á ferli á nýársnótt og að það flyttist jafnvel búferlum þessa nótt.
Á þessum ferðum sínum átti huldufólkið til að líta inn á bæjunum. Til að vera við öllu búin þrifu húsfreyjurnar húsin sín einstaklega vandlega þennan síðasta dag ársins, því það var vitað mál að huldufólkið þoldi illa óþrifnað.
Ljós voru látin loga í öllum hornum bæjarins svo hvergi bar skugga á og ekkert gæti dulist. Sums staðar voru kertin jafnvel látin loga alla nóttina.
Húsfreyjurnar settu mat á diska handa þessum ósýnilegu gestum sínum og komu þeim fyrir í afskekktum kimum hússins. Í flestum tilfellum voru diskarnir tómir að morgni og óvíst hver það var sem hafði gætt sér á kræsingunum…
Einnig var það venja að húsfreyjan gengi snemma morguns þrisvar sinnum í kringum húsið og færi með eftirfarandi þulu:
Komi þeir sem koma vilja,
veri þeir sem vera vilja,
fari þeir sem fara vilja,
mér og mínum að meinalausu.
Það var trú manna að á nýársnótt gætu kýr skilið mannamál á. Þannig dvaldi margur bóndinn á nýársnótt í fjósinu og reyndi að spá í um hvað kýrnar væru að tala.
Í dag er álfum og huldufólki ekki lengur boðið inn á íslensk heimili með mat og kertaljósum.
Þess í stað er kveikt á brennum víða í borgum og bæjum landsins þar sem sums staðar er dansað í kringum eldinn og sungnir söngvar. Að loknum brennunum er haldið heim og kveikt á flugeldum um miðnætti.
Einnig er það siður mjög víða á Íslandi að kveikja hinar svokölluð „álfabrennur“ þann 6. janúar þar sem einnig er dansað og sungið þar til eldurinn kulnar.