Tölt-kapphlaup í Þýskalandi í kringum 1980. Mynd/fjölskyldualbum Reber
Í Þýskalandi var í gamla daga hið svokallaða tölt-kapphlaup vinsæl keppnisgrein á hestamannamótum. Keppnin gekk útá að ríða hratt tölt í tvo hringi á hringvelli. Sá hestur sem var fljótastur og stökk ekki upp, vann keppnina. Þátttakendur máttu ekki vera yngri en 16 ára.
Nú er löngu hætt að keppa í þessari keppnisgrein, enda stóð alla tíð mikill styrr um hana. Walter Feldmann yngri benti réttilega á, að töltið gengi ekki útá hraða, heldur skipti taktur og fegurð gangtegundarinnar mun meira máli.
Og þegar Walter kom með eftirfarandi samlíkingu sló hann alla útaf laginu og endalega var ákveðið að leggja keppnisgreinina niður:
„Það er álíka fáránlegt að taka tímann á tölti eins og að taka tímann við að dansa vínarvalsa á balli!“