Við óskum öllum lesendum HestaSögu gleðilegrar jólahátíðar og farsældar komandi ári!
Loksins er aðfangadagur jóla runninn upp og hinn friðsæli, góðlyndi Kertasníkir sem er síðastur jólasveinanna kemur til byggða. Hann er alltaf jafn hrifinn af jólastemmingunni í borgum og bæjunum með öllum fallegu ljósunum sem hann sér á jólatrjánum, í gluggunum og á svölum heimilanna.
Kertasníkir er lang vinsælastur þeirra bræðra hjá mannfólkinu, því hann tekur ekkert frá fólkinu nema spyrja fyrst hæverskur um leyfi. Aldrei skilur hann heimilin eftir í óreiðu eða hrekkir fólkið með hávaða og látum.
Það má því með sanni segja að það er mikil lukka að Kertasníkir er sá þeirra bræðra sem kemur daginn sem allir bíða eftir með óþreyju!
Í ár er Kertasníkir ekki einn á ferð, því hann er í fylgd með hryssunni Blíðu, sem hann var strax mjög hrifinn af. Það heldur ekki nema von að svona vel fer á með þeim, því Blíða er eins og nafnið hennar ber með sér alveg jafn blíð og góð og Kertasníkir.
En eins og allir vita er Kertasníkir mjög hrifinn af kertum. Hann safnar öllu kertum sem hann nær yfir og gefur síðan fátæku fólki svo allir geti kveikt á kerti um jólin.
Stundum tekur hann með sér eitthvað af því sem bræður hans hafa tekið föstum tökum, án þess að spyrja þá leyfis og gefur það til annarra sem meira þurfa á því að halda.
Kertasníkir fyllist ósegjanlegri gleði þegar hann sér gleðina skína úr andlitum þeirra sem hann færir gjafirnar.
Stundum kveikir hann á kerti fyrir sig einan. Þá horfir hann þögull og rólegur á kertalogann og gleðst yfir því hversu friðsamleg stemming er á jörðinni og vonar að það verði áfram þannig.
GOTT RÁÐ
Þeir sem vilja gleðja Kertasníki geta sett nokkur kerti á gluggasylluna.
Þessi góðlyndi jólasveinn mun örugglega finna einhvern sem hann getur glatt með kertunum.