Heidi Schwörer við afhendingu afkvæmaverðlauna fyrir Stíganda frá Kolkuósi


Eins og gengur og gerist eru hestamenn ekki alltaf sammála um kosti einstakra hesta og kjaftasögur fljótar að fara á kreik.

Á meðan Stígandi var á Íslandi voru ekki margir sem höfðu trú á honum og áhugi fyrir hestinum var lítill. Ekki var árangur hans á kynbótasýningum til að bera hróður hans langt. Því fór svo að Stígandi var seldur úr landi.

En eftir því sem frá leið fór kynbótagildi Stíganda að koma betur í ljós og hópur þeirra sem hörmuðu að hesturinn væri farinn af landi brott stækkaði ört.

Hér á eftir fer stutt samantekt á ferli Stíganda meðan hann var staðsettur á Íslandi sem lesa má í bók Andersar Hansen um Svaðastaðahrossin og frásögn Heidi af klárnum.


Stígandi var fæddur árið 1962 að Kolkuósi í Skagafirði. Hann var sýndur í fyrsta skipti í kynbótadómi á landsmótinu að Hólum árið 1966 aðeins 4. vetra gamall og fékk eftirfarandi umsögn og dóm:

„Prúður en ekki fínbyggður, alhliða ganghestur. Lítið taminn og óþjáll í lund“. Stígandi fékk fyrir sköpulag einkunnina 8,00, fyrir hæfileika 7,40 og í aðaleinkunn 7,70 og önnur verðlaun.

Stígandi frá Kolkuósi 4 v. á Landsmóti að Hólum í Hjaltadal.

En hver er framtíð stóðhests sem fær slíkan dóm á Landsmóti aðeins 4 vetra gamall? Yrði einhver möguleiki að breyta áliti dómara og almennings á hestinum?

Það kom í ljós í sambandi við allt annað atvik á landsmótinu 1966 að það yrði erfitt fyrir Stíganda.

Skipuleggjendur landsmótsins höfðu látið sér detta ýmislegt í hug til að auka vinsældir mótsins og laða að fleiri sýningargesti. Meðal annars átti einn af hápunktum landsmótsins að vera happdrætti með stóðhest ásamt reiðtygjum í aðalvinning.

Og aðalvinningurinn var enginn annar en

Stígandi frá Kolkuósi!

En þessi frábæra hugmynd fór þó ekki alveg eins og til var ætlast, því á meðan verið var að draga í happdrættinu skall á vonskuveður að Hólum með hávaðaroki þannig að allt steini léttara fauk út í buskann!

Og aðalvinninginn í happdrættinu sótti enginn, svo ræktandi Stíganda Sigurmon Hartmannsson í Kolkuósi, keypti hestinn ásamt reiðtygjum aftur tilbaka. Það var haft að orði, að líklega hefði happdrættismiðinn fokið út í veður og vind í óveðrinu að Hólum. En hvort miðinn týndist í óveðrinu eða handhafi miðans hafði ekki áhuga á vinningnum veit enginn.

Skömmu síðar var Stígandi seldur á nýjan leik. Í þetta skipti var hann seldur til hrossaræktarsambands á Norðurlandi. Þegar hrossaræktarsambandið var lagt niður nokkrum árum síðar og þeir 7 stóðhestar sem voru í eigu sambandsins voru boðnir til sölu var á nýjan leik enginn áhugi fyrir Stíganda, svo Sigurmon keypti hann tilbaka í annað skipti.

En þar sem Sigurmon var enn að nota Hörð 591 frá Kolkuósi föður Stíganda í ræktun sinni hafði hann ekki þörf fyrir Stíganda og bauð hann til kaups. En eins og svo oft áður var enginn áhugi fyrir honum innanlands og því var Stígandi seldur til Þýskalands árið 1974.

Átti þetta áhugaleysi á hestinum kannski rétt á sér? Í kynbótadómi 1966 var ekki sannfærandi og þegar hann var endursýndur árið 1970 á landsmótinu á Þingvöllum gat hann ekki bætt um betur og fékk fyrir sköpulag 7,60, fyrir hæfileika 7,67 og í aðaleinkunn7,67. Á fjórðungsmóti í Skagafirði árið 1972 var hann sýndur með afkvæmum (5 hryssur og 1 stóðhestur), en einnig í þetta skipti lét árangurinn á sér standa og Stígandi fékk aðeins 2. verðlaun fyrir afkvæmi.

Stígandi frá Kolkuósi á fjórðungsmóti í Skagafirði árið 1972

Á meginlandi Evrópu gat Stígandi loksins sýnt hvað í honum bjó sem kynbótahestur. Hann var fljótlega seldur frá Þýskalandi til Sviss þar sem hann gagnaðist svissneskum ræktendum í nokkur ár. En þetta var ekki endastöð Stíganda og var hann boðinn til sölu á nýjan leik.

Er Heidi keypti hann fór fréttin eins og eldibrandur um íslandshestaheiminn í Þýskalandi og ekki voru allar sögurnar af honum fallegar. Að kaupa 19 vetra gamlan stóðhest með þessa forsögu þótti fólki galið. Gamlar sögur af Stíganda voru rifjaðar upp og nýjum bætt við.

Heidi lét það ekki á sig fá og hélt undir Stíganda 35 hryssum. Hún sá hann aldrei vera fylja hryssurnar sem olli henni áhyggjum þegar frá leið. En þær áhyggjur voru ástæðulausar, því Stígandi stóð sig þarna eins og svo oft áður og allar hryssurnar sem voru hjá honum fyljuðust og eignuðust heilbrigð folöld ári síðar.

Í dag leikur ekki lengur neinn vafi á því að Stígandi frá Kolkuósi tilheyrir hópi einna eftirminnilegustu stóðhesta þess tíma og er í rauninni furðulegt hvað tók langan tíma fyrir margan hestamanninn að uppgötva það.

Þýtt úr þýsku

Heimildir:
Heidi Schwörer. 2018. Munnlegar heimildir.

Anders Hansen. 1989
Svaðastaðahrossin, uppruni og saga, II. bindi, bls. 32-34.

Sérstakar þakkir til Kristins Hugasonar, forstöðumanns Söguseturs íslenska hestsins fyrir lán á myndefni.



STÍGANDI FRÁ KOLKUÓSI


FEIF-ID: IS1962158589

FÆDDUR: 1962 á Íslandi
FELLDUR: 1992 í Þýskalandi

ÆTT

Faðir: Hörður 591 frá Kolkuósi
F.f.: Brúnn frá Syðri-Brekkum
F.m.: Una frá Kolkuósi

Móðir: Jörp frá Kolkuósi
M.f.: Léttir frá Kolkuósi
M.m.: Miklahólsjörp frá Kolkuósi

KYNBÓTAMATIÐ – BLUP

Sköpulag: 102 Hæfileikar: 98 Aðaleinkunn: 99


Þegar kynbótamat Stíganda er athugað viðist það við fyrstu sýn vera mjög lágt. En ef kynbótagildi hans eru borin saman við kynbótamat stóðhesta frá þessum tíma (fæðingarár 1960-1965) líta málin öðruvísi út.

Þá stendur Stígandi ásamt hálfbróður sínum IS1960158380 Þokka frá Viðvík efstur í þessum aldursflokki með aðaleinkunnina 99.


UPPLÝSINGAR UM AFKVÆMI

Alls eru 359 afkæmi undan Stíganda frá Kolkuósi skráð í upprunaættbókina WorldFeng (www.worldfengur.com). Af þeim eru;

258 fædd á Íslandi, 49 fædd í Sviss, 50 fædd í Þýskalandi og 2 fædd í Hollandi.

 
FRÆG AFKVÆMI

Tvö afkvæmi Stíganda skilja eftir sig stór spor í hrossaræktinni og er því rétt að nefna hér.


CH1976101392 ÞÓR VOM SPORZ


Sennilega er stóðhesturinn „Þór vom Sporz“ undan Perlu frá Kolkuósi frægasta afkvæmi Stíganda.

Þór var á sínum tíma mjög sigursæll á fjölmörgum íþróttamótum á meginlandi Evrópu og einnig vinsæll sem kynbótahestur.

Frægasta afkvæmi Þórs er stóðhesturinn „Týr vom Rappenhof“ sem að öðrum hrossum ólöstuðum, er sjálfsagt einn frægasti stóðhestur sem komið hefur úr þýskri hrossarækt.

IS1971258589 ÞERNA FRÁ KOLKUÓSI


Stígandadóttirin „Þerna frá Kolkuósi“ kom tvisvar í kynbótadóm fyrst 5 vetra gömul og svo aftur 6 vetra. Hún fékk eftirfarandi einkunnir 6 vetra: sköpulag 8.00, hæfileikar: 8,03, aðaleinkunn: 8,02. Eftir kynbótadómin fór hún beint í folaldseignir á ríkisbúinu að Hólum í Hjaltadal.

Fyrsta afkvæmi hennar lukkaðist vel, en það er hin sögufræga hryssa Þrá frá Hólum (faðir: Þáttur frá Kirkjubæ). Hún var sýnd af Ingimar Ingimarssyni frá Flugumýri aðeins 4 vetra gömul á Landsmóti hestamanna árið 1982 og fékk draumaeinkunnirnar: sköpulag: 8.50, hæfileikar: 8,45, aðaleinkunn: 8,48.  Það má segja að það sé synd að hafa ekki fengið að sjá þessa hryssu einhvers staðar aftur í reið, en í staðinn gaf hún Hólabúinu alls 15 framúrskarandi afkvæmi og fékk heiðursverðlaun fyrir þau á Landsmótinu í Reykjavík árið 2000.

Heimildir:

www.Worldfengur.com
upplýsingar fengnar úr WorldFeng árið 2018.

Passar við þessa sögu:

MÓSA MINNING

Sagan sem á eftir fer birtist fyrst árið 1931 í tímaritinu „Dýraverndarinn“ og fjallar um það hverning hesturinn Mósi bjargar lífi ungs drengs á sveitaheimili fyrir u.þ.b. 100 árum.

LESA MEIRA

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Senda inn sögu:

Á þessari vefsíðu er ætlunin að bjóða upp á breitt úrval af sögum og frásögnum af hestum úr öllum áttum.

Við leggjum áherslu á listræna hönnun síðunnar þar sem samspil texta og mynda gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Þar af leiðandi gætum við þurft að gera einhverjar breytingar á innsendu efni. Hins vegar verða engar breytingar gerðar nema með samþykki viðkomandi aðila. Áður en sagan er birt á vefsíðunni er hún send til höfundarins til yfirlestrar og ekki birt fyrren búið er að fá samþykki viðkomandi fyrir breytingunum.

PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR
SAGAN ÞÍN

Best er að þú vistir textann þinn sem World skjal og sendir það ásamt myndum í viðhengi tölvupóstins til okkar. Athugið að senda aðeins inn myndir sem má nota á internetinu eða myndir sem þið eigið höfnundaréttin að.

upplýsingar um söguna