Fylgja ásamt fósturbelgjum (vatns-og líknarbelgjum)
Fylgjan, sem einnig er nefnd legkaka, tengir blóðrás móðurinnar við blóðrás fóstursins og sér því fyrir næringarefnum og súrefni. Einnig losar hún fóstrið við úrgangsefni. Fóstrið er tengt við legkökuna í gegnum naflastrenginn.
Við eðlilega fæðingu losar hryssan sig við fylgjuna og hildirnar úr líkamanum fljótlega eftir fæðingu folaldsins.
Ef fylgjan er ekki komin u.þ.b. 3 tímum eftir fæðinguna er ráðlagt að hringja í dýralækni, þar sem hætta er á því að legslímhúð hryssunnar beri varanlega skaða ef ekkert er að gert.
Einnig getur borið á ýmsum fylgikvillum eins og legbólgu og hófsperru sem hægt er að komast hjá með því að bregðast fljótt við og hjálpa hryssunni að losna við fylgjuna.