Mýrar eru rök landssvæði oftast nær með mjög hárri grunnvatnsstöðu. Jarðvegurinn er yfirleitt súr (lágt sýrustig) m.a. sökum súrefnisskorts og er rotnun plöntuleifanna mjög ófullkomin og hægfara. Sveppir og loftfælnir gerlar sjá að mestu um niðurbrot jurtaleifanna sem blandast smá saman við jarðveginn.
Harðgerðar votlendisplöntur svo sem mosi og mýrarstör ásamt öðrum staraplöntum einkenna þessi landssvæði. Þar sem vatn streymir upp úr jörðinni geta myndast hættuleg dý sem eru staðbundin og ná sjaldan yfir stór landssvæði. Þau eru oft vaxinn dýjamosa sem gefur dýjasvæðinu mjög sérstakan ljósskærgrænan litblæ.
Slík foraðsdý eða fen geta verið „botnlaus“ og ákaflega hættuleg búfénaði og mönnum.