Fyrsta hestinn sem ég eignaðist fékk ég gefins, því eigandinn vildi losna við hann. Ég var þá 11 ára gömul og náttúrulega alltof ung til að fást við slíkan vandamálahest. Það gekk heldur ekki upp hjá okkur og hesturinn var felldur. Það tók mig langa tíma að jafna mig á öllu saman, en ég var samt staðráðin í því að eignast aftur hest.
Ég gerði mér grein fyrir því að það myndi taka tíma að vinna úr þessari reynslu. Ég sætti mig við það, því ég vissi að við áttum ekki til pening til að kaupa hest.
En foreldrar mínir voru dugleg að safna og lögðu til hliðar hverja einustu krónu sem var aflögufær á heimilinu, svo hægt yrði að uppfylla drauminn minn. Auðvitað var ég líka dugleg að safna og lagði svo til allan vasapeninginn minn í púkkið.
Þegar ég varð 13 ára var biðin loksins á enda. Ég gleymi því aldrei þegar foreldrar mínir sögðu mér að nú væri stóra stundin runnin upp og peningarnir myndu duga fyrir hrossi.
Það er töluvert síðan þetta var, en ég man eftir þessum degi eins og það hefði gerst í gær, þegar við fórum og sóttum hann Glanna minn, fimm vetra bleikskjóttan, þrístjörnóttan fola, þar af ein stjarnan svört.
Það var ekki bara liturinn sem heillaði mig heldur var hann líka einmitt týpan sem ég var að leita eftir, þægur, vinalegur og traustur. Þrátt fyrir ungan aldur var ekkert sem gat komið honum í ójafnvægi.
Strax fyrstu dagana eftir að Glanni kom til okkar fór ég í úteiðartúra á honum og gekk það allt saman án vandræða.
Einn daginn þegar ég fór í útreiðartúr á honum eins og vanalega mundi ég ekkert eftir því að þessa helgi var stórt hestamannamót á Hellu.
Þegar ég fattaði það var ekki til baka snúið. Vegurinn sem ég reið eftir var fullur af bílum margir þeirra með hestakerrur aftan í sem þeystu fram og tilbaka án þess að Glanni léti það nokkuð á sig fá.
Hver bíllinn á fætur öðrum mætti okkur en við Glanni héldum okkar striki þar til að stóran jeppa bar að sem keyrði hægt framhjá okkur og staðnæmdist svo úti í vegarkantinum.
Mér fannst eins og Glanni hefði skírskotað augunum til jeppans þegar hann fór framhjá okkur. Hann allavegana lyfti upp höfðinu og byrjaði að hneggja hátt og herti á ferðinni.
Út úr bílnum stigu eldri hjón sem bæði voru eitthvað um sjötugt og maðurinn studdi sig við staf. Glanni hætti ekki að hneggja fyrren við vorum komin að fólkinu og þar staðnæmdist hann sjálfkrafa. Þið hefðuð átt að sjá andlitið á gömlu hjónunum.
Bæði brostu þau út að eyrum og gamla konan kallaði til okkar: „Er þetta ekki hann Glanni okkar?“
Eftir að ég hafði staðfest það bætti hún við: „Ég vissi að þetta væri hann Glanni!“ sagði hún og bætti við „hann er fæddur okkur og við höfun ekki séð hann síðan við seldum hann þriggja vetra í burtu. Glanni var alltaf í miklu uppáhaldi hjá okkur.
Við höfum oft hugsað til hans og velt fyrir okkur hvað hefði orðið um hann. Það er svo gaman að sjá Glanna aftur og ennþá betra að sjá, að hann hefur lent í góðar hendur hjá ungri stúlku sem hugsar vel um hann“.
Ég fór af baki og horfði snortin á það hvernig gömlu hjónin kysstu og knúsuðu Glanna minn og hann naut þess í botn!
Glanni hefur hvorki fyrr né síðar sýnt slíkt hátterni gagnvart nokkurri manneskju svo ég viti til. Það er því ekki spurning í mínum huga að hann þekkti gömlu hjónin aftur og þetta dæmi sýnir glögglega að hross geta verið mjög minnug.
Hekla Hattenberger Hermundsdóttir
Þýtt úr þýsku