Hinn órólegi, ofvirki Hurðaskellir er sjöundi í röð jólasveinabræðranna sem leggur af stað til byggða. Hann getur vart beðið eftir því að byrja að hrekkja mannfólkið og setur á sig skíði til að vera fljótari í förum. En ferðin gengur ekki eins vel og ætla má, því karlinn er svo spenntur að hann nær engri einbeitingu á skíðunum og dettur stöðugt á hausinn.
Í einu af þessum fjölmörgu skiptum sem hann sat fastur í snjóskafli birtist honum hesturinn Grikkur sem kom eins og himnasending fyrir Hurðaskelli, til að skoða hver væri þarna á ferðinni.
Hurðaskellir, sem nú var orðinn langt á eftir tímaáætlun, krafsaði sig á fætur og setti eina ferðina enn á sig skíðin. Síðan greip hann í tagl Grikks og benti honum á hvert hann ætti að fara. Nú gekk ferðin eins og í sögu og Grikkur nam ekki staðar fyrren hann stóð framan við fyrstu bæjardyrnar í dalnum.
Þveröfugt við bræður Hurðaskellis sem læðast um hljóðlega gerir þessi háværi, karl vart við sig með því að skella aftur hurðum með svo miklum látum svo fólk hrekkur í kút. Þess vegna reynir mannfólkið að hafa allar dyr í það minnsta lokaðar og jafnvel læstar á þessum degi.
Það kom svo fljótlega í ljós að Grikkur, eins og nafnið ber með sér, hefur líka einstaklega gaman af því að hrekkja. Í ár var því opnum dyrum á hýbýlum manna skellt aftur með tvöföldum krafti svo að veggirnir nötruðu sem um jarðskjálfta væri að ræða og fólk hrökk í kút og flytti sér út á hlaðið.
GOTT RÁÐ
Þeir sem vilja komast hjá hrekkjum Hurðaskellis, geta sett stórt, rautt epli framan við dyrnar sínar. Í ár væri kannski betra að hafa þau tvö, því í þetta sinn er Grikkur með í för.
Þegar Hurðaskellir er í góðu skapi skilur hann eftir litla gjöf í staðinn.