Sá fimmti sem heldur af stað til byggða er hinn rólyndi Pottaskefill eða Pottasleikir eins og hann er líka stundum kallaður. Hann er ekkert að flýta sér og gengur hægt og rólega niður fjallið með vaggandi göngulagi. Hann telur sig hafa nægan tíma, því hann leggur af stað einum degi á undan bróður sínum Askasleiki.
Þegar hann er kominn niður á láglendið tekur hann eftir því að Askasleikir er lagður í hann og er ofsa ferð á honum. Bilið á milli þeirra styttist óðfluga þannig að Pottaskefill sá sér ekki seinna vænna en að hafa hraðann á sér.
Móður og másandi vaggar hann eins hratt og hann getur í átt til byggða. Nú sá hann eftir því að hafa tekið því svona rólega, því bilið milli þeirra bræðra styttist óðum. Það þurfti því eitthvað stórkostlegt að gerast til að hann myndi ná að verða á undan bróður sínum að bænum.
En Pottaskefill hafði heppnina heldur betur með sér því hann rakst á hestinn Geysi. Geysir er langfljótasti hesturinn í stóðinu og eins og nafnið bendir til, sýður gjörsamlega uppúr hjá honum af fjöri og hlaupagleði. Hann var nákvæmlega það sem Pottaskefil vantaði til að vera á undan Askasleiki.
Þegar Pottaskefill er kominn á áfangastað, þefar hann strax uppi eldhúsið á bænum. Þar leitar hann að pottum með matarleifum. Best þykir honum að finna potta með rjómasósu eða mjólkurgraut.
Ef hann finnur potta tekur hann þá með sér út á hlaðið, þar sem hann skóflar í sig afgöngunum með skeið sem hann hefur meðferðis og sleikir svo að lokum pottana innan.
Í ár var hann bara nokkuð heppinn, því hann fann pott með leifum að hrísgrjónagraut sem hann skipti bróðurlega á milli sín og Geysis.
GOTT RÁÐ
Þeir sem vilja losna við að fá Pottasleiki inn í eldhús og hafa pottana sína í friði, geta sett skál með mjólkurgraut út í gluggan.
Þegar vel liggur á honum skilur hann eftir litla gjöf í staðin