Fjórði jólasveinninn er hinn langi, granni, Þvörusleikir. Þar sem hann hefur ekki mikið úthald á gangi, tekur hann alltaf með sér sleðann sinn í ferðalagið. Honum þykir svo gaman að bruna á fullri ferð niður brekkurnar. Þegar hann er kominn niður á jafnsléttuna pirrar það hann að þurfa að ganga restina af leiðinni og draga á eftir sér sleðann sinn.
En í ár var hann svo heppinn að hryssan Ausa varð á leið hans og ekki spillti nafn hryssunnar fyrir gleði hans. En Ausa ber líka nafn með réttu, því hún er ramm hrekkjótt og vís með að ausa hressilega um leið og einhver settist á bak.
En Þvörusleikir deyr ekki ráðalaus og batt sleðann aftan í tagl hryssunnar sem nú þýtur af stað til næsta bæjar með Þvörusleiki á sleðanum í eftirdragi.
Þegar Þvörusleikir er kominn á áfangastað læðist hann inn í eldhús og hefur með sér allar óhreinar sleifar og ausur sem hann finnur og sleikir í rólegheitum undir húsvegg. Húsráðendur eru að finna sleifarnar út um allan garð og stundum finnast þær ekki fyrren snjóa leysir um vorið.
GOTT RÁÐ
Þeir sem frekar vilja þvo sleifarnar sínar með vatni mættu reyna að setja stóra sleikbrjóstsykur í gluggakistuna handa Þvörusleiki svo hann hafi eitthvað að sleikja.
Þegar hann er í góðu skapi skilur hann eftir gjöf í staðinn.