Í þjóðtrú Íslendinga eru jólasveinarnir þrettán komnir af tröllum og halda sig ásamt foreldrum sínum, Grýlu og Leppalúða, hátt upp í fjöllum allt árið um kring nema um jólin.
Þegar skammdegið er sem svartast koma þeir hver á eftir öðrum til byggða til að hrekkja mannfólkið.
Sá fyrsti kemur þrettán dögum fyrir jól og sá síðasti á aðfangadag jóla. Síðan hverfa þeir hver á eftir öðrum í sömu röð aftur til sinna heima.
Hér áður fyrr voru jólasveinarnir notaðir til að hræða börn og var þeim lýst sem tröllslegum vættum, stórum og luralegum.
Þeir höfðu á brott með sér óþekk börn og stálu einnig ýmsu góðgæti af heimilunum. Einkum var móðir þeirra Grýla þekkt fyrir að næla sér í börn sem ekki höguðu sér skikkanlega og hafa sér til matar.
En sem betur fer breyttist ímynd íslensku jólasveinanna smátt og smátt og um síðustu aldamót voru þeir farnir að líkjast mjög erlendu fyrirmyndinni Nikulás, tóku á sig mannsmynd, klæddust rauðum fötum og urðu vinir barnanna.
Nú á tímum fá öll þæg börn sem setja skóinn sinn út í glugga góðgæti frá jólasveinunum þrettán í skóinn.
Á komandi þrettán dögum munu birtast á HestaSögu nýjar sögur af íslensku jólasveinunum þrettán og fararskjótum þeirra sem eru að sjálfsögðu hestar!
Allar sögurnar eru myndskreyttar af listakonunni Maríu.