Ég átti lengi rauðlitföróttan reiðhest sem var Öræfingur að uppruna og hafði fengið gott uppeldi. Hann var kallaður Litfari. Ég eignaðist hann 1872, þá 5 vetra gamlan, en hann var sleginn af haustið 1885, þegar hann fór að verða fremur brjóstþungur. Auk þess treysti ég mér ekki, þann vetur sem þá fór í hönd, að gera svo vel hann, sem hann átti af mér skilið.
Litfari var meðalhestur að stærð, heldur þrekinn, holdahestur og mjög fríður vexti. Eigi var hann ofsafjörugur, en síviljugur meðan hann lifði. Einnig ágætlega þýður og með vekurð í betra lagi.
Hann var traustur, mjög fótvís og vatnahestur hinn besti, enda hafði hann sveip „sundfjöður“ gegnum makkann. Hann var mjög vegvís þannig að ég þarfnaðist ekki fylgdar í náttmyrkri eða hríðarmyrkri meðan hans naut við.
Eitthvert sinn var ég á heimleið (úr Hofsprestakalli að Höskuldsstöðum) um kvöld í stórhríð og var svo dimmt, að ekki sá til vegar. Þó var góð færð, því snjólétt var og reið ég því allgreitt. Ekki tók ég eftir hvar ég var staddur fyrr enn Litfari allt í einu nemur staðar og vill eigi lengra fara, þrátt fyrir að ég fyrst í hugsunarleysi knýði á hann.
Mér varð þá að ráði að ég sleppti við hann taumunum og lét hann stýra förinni. Snéri hann þá við og hélt upp í veðrið góða stund, uns er hann nam aftur staðar og var þá komin að dyrunum á húsi sínu. Þar var ég vanur að fara af baki og spretta af, en ekki heima á hlaði þegar heim kom að kvöldi dags.
Þetta var ekki í eina skiptið, í hríðarveðri og náttmyrkri, að hann hafði vit fyrir mér og í vötnum mun ég ósjaldan hafa átt honum fjör að launa.
Eitt sinn var ég á ferð á vetrardag úr Hofsprestakalli heim á leið. Veður var kalt, en bjart af tungli og gott að fara. Reið ég eftir flóum nokkrum, er lagðir voru. Eigi vissi ég fyrr til en Litfari stakkst á endann ofan í dý nokkurt og hrökklaðist ég af honum.
Eigi stóð upp úr nema höfuðið. Dýið var þröngt mjög og svo var frosið umhverfis það, að mér tókst ekki að víkka það með svipunni minni.
En á gjörðina skar ég og gat þannig náð af honum hnakknum. Nú var ég yfir honum á að giska nærri klukkustund og ýmist togaði í tauminn á ýmsar hliðar eða danglaði í makkann á honum með svipunni, en árangurslaust. Hann bærðist eigi hið minnsta.
Alllangt var til bæja, en þó að ég treysti mér til að rata þangað, þá treysti ég mér eigi til þess að finna dýið aftur. Ég sá því ekki fært að leita mannhjálpar honum til bjargar, en vildi með engu móti skilja við hann lifandi í dýinu og láta hann krókna þar útaf. Varð ég því einráðinn í að sálga honum með vasahníf mínum, áður en ég skildi við hann.
Tók ég þá að hvetja kutann, því ég hafði iðulega brýni með mér í vestisvasanum. Stóð ég svo á vakarbarminum og horfði við og við á klárinn. En hann horfði einhvern veginn svo bænarlega á mig að mér stendur augnaráð hans ennþá fyrir hugskotssjónum, rétt eins og hann skildi og vissi hvað ég hafði í hyggju.
Þegar ég var búinn að brýna togaði ég enn til reynslu lítið eitt í tauminn og vatt hann sér þá allt í einu upp úr dýinu umbrotalaust og var eigi að sjá að hann tæki sér það nærri. Ég hygg að ég hafi hvorki fyrr né síðar fengið betri sprett úr Litfara, en er hann var að hita sér eftir þetta volk.
Eggert Ó. Brím
Upprunalegur titill: Um „Litfara“ og „Löpp„, Dýravinurinn, 3. árgangur 1889, 3. tbl., bls. 30-31.
Textinn er lítilsháttar styttur og aðlagaður að nútíma máli og stafsetningu.