ÞOLINMÆÐI ÞRAUTIR VINNUR ALLAR…

… og það sem virkilega skiptir máli!

Stóðhesturinn, röltstyggi sem ekki leyfði eiganda sínum að ná sér.

Hún tilheyrði þeim hópi fólks sem fékk allar sínar óskir uppfylltar, meira að segja fékk hún strax pláss í læknisfræði í háskólanum. En nú var annað uppi á teningnum. Hún stóð við hliðið og horfði út í fjarskann. Í hinum enda girðingarinnar var stóðhesturinn sem hún var nýbúin að kaupa sér að bíta gras. Á lend hans sat hrafn sem vaggaði til og frá við hvert skref sem hesturinn tók.

Hún stóð bara við hliðið og beið. Hann leit ekki einu sinni upp þegar hún kallaði til hans. En hún vissi að hann hafði heyrt í henni. Hún sá það á því hvernig hann hreyfði eyrun.

Hún vissi líka uppá hár að um leið og hún myndi opna hliðið og ganga í áttina til hans myndi hann snúa sér við og rölta í burtu. Rólega fyrst í stað, en ef á þyrfti að halda með eldsnöggum, hröðum hreyfingum. Hann hafði svo fallegar, fjaðurmagnaðar hreyfingar og það stirndi á feld hans í sólinni.

Þegar hann var í stíunni sinni gat hún vandræðalaust náð honum og sett á hann múl. Hann stóð þar kurteis og rólegur og beið þess sem koma vildi. En um leið og honum hafði verið sleppt út á tún, hleypti hann henni ekki nálægt sér.

Samt hafði hún alltaf passað uppá, að hann fengi allt sem hann þurfti, meira að segja fékk hann að hafa félagsskap af gömlum geldingi sem hún átti. Hún sá því enga ástæðu fyrir hann að láta svona við hana og rjúka alltaf í burtu.

Í staðinn var hann að stríða henni með því að bera þennan fugl á bakinu í stað hennar. Með múlinn í annarri hendi opnaði hún hliðið og gekk í áttina til hestsins. Þegar hún átti ekki eftir nema um tvo metra til hans, rölti hann hægt og rólega í burtu frá henni.

Hann leit ekki einu sinni upp og lét eins og hann hefði ekki séð hana. Hún gekk til gamla geldingsins og klappaði honum á ennið. Síðan hélt hún áfram í áttina til stóðhestsins sem hafði staðnæmst án þess að hætta að bíta grasið.

„Svona, svona karlinn“ sagði hún. „Ætlarðu ekki að koma núna með mér?“

Um leið og hún snerti herðarnar, stökk hann í burtu og lét ekki ná sér.

Hann snéri höfðinu til hennar og beið. Hún fékk meira að segja að snerta hann. En þegar hún snerti herðarnar á honum fór allt í einu kippur um líkama hans, eins og hann hefði fengið straum í sig og hann hentist í ofboði í burtu frá henni. Hana langaði mest til að henda múlnum á eftir honum, en í staðinn hélt hún aftur af sér.

„Jæja, þá sleppum við því!“ kallaði hún á eftir honum.

Sama sagan endurtók sig dag eftir dag. En ef hún fékk hjálp og þau voru tvö saman, var yfirleitt hægt að ná honum. Þá þurfti hún að biðja gamla manninn um aðstoð. Hann leyfði gamla manninum alltaf að ná sér, en Benni gamli hafði heldur ekki áhuga á því að klifra á bak honum.

Svona dutlungar voru ekki það sem hún þurfti á að halda núna. Hún hafði fullt í fangi með námið, því það var mun erfiðara en hún hafði gert sér grein fyrir. Það var kannski ekki beint erfitt, en það var óendanlega mikill untanbókarlærdómur.

Og nú var hún ekki lengur viss um að læknisfræðin væri hið rétta fyrir hana. Pabbi hennar hvatti hana til að gefast ekki upp og halda áfram. Oft og iðulega hafði hún engan tíma fyrir sjálfa sig hvað þá til að hitta vinkonur sínar.

Stóðhesturinn hennar var sex vetra og var sagður vera mjög góður. Hann kom frá Íslandi um veturinn og átti að verða keppnishesturinn hennar á komandi sumri. Pabbi hennar hafði gefið henni hestinn í stúdentsgjöf. Öll fjölskyldan flaug til Íslands til að leita að rétta hestinum handa henni. En frá því að hann kom til hennar út til Þýskalands gekk ekkert lengur upp með hann.

Hún gekk til baka að kaffistofunni. „Geturðu nokkuð hjálpað mér að ná honum?“ spurði hún. Gamli maðurinn stóð upp og deplaði augunum í sólinni. „Ætlarðu að fara þjálfa hestinn í þessum hita?“ spurði hann og brosti hlýlega til hennar.  „Já, það ætla ég,“ sagði hún. „Ef hann getur hreyft sig út á túni, ætti hann líka að geta hreyft sig með mig á bakinu.“

„Hvað er það sem þú gerir alltaf við hann, vinan?“ sagði Benni gamli og fór sér hægt. Á meðan hann talaði til hestsins var eins og hesturinn kæmi stöðugt nær honum, skref fyrir skref. Benni rétti fram höndina í áttina til hans og leyfði honum að þefa af henni. Síðan klóraði hann hestinum undir ennistoppnum.

Benni gamli gat alltaf náð honum og mýlt hann.

„Þú hefur svitnað, greyið. Það er varla nema von, það er svo heitt í dag,“ sagði gamli maðurinn og strauk sjálfum sér um ennið.

Stóðhesturinn leyfði honum vandræðalaust að setja á sig múlinn. Sennilega myndi þessi leikur halda svona áfram þar til að hún myndi gefast upp á hestinum og fá sér nýtt hross.

Hún ákvað að fara með hann á íþróttamót þrátt fyrir að hlutirnir væru ekki farnir að ganga alveg upp hjá þeim. Þetta var seinni part sumars og allan daginn hafði verið mjög heitt í veðri ásamt miklum loftraka. Stóðhesturinn var óvenju rólegur.

Sennilega hafði hann bara ekki orku til að vera með neina óþægð. Um hádegisbilið sáust fyrstu óveðursskýin á himninum og það heyrðust drunur í fjarska.

Fljótlega eftir hádegið var Futurity fimmgangsgreinin sem hún var búin að skrá þau í. Hún var nýbyrjuð að hita stóðhestinn sinn upp fyrir keppnina, þegar þrumuveðrið skall á með hellirigningu og hávaða roki. Hún hafði einbeitt sér svo mikið að hún tók ekkert eftir því að óveður var í aðsígi.

Dómaratjöldin í miðju hringvallarins stóðust ekki nema tvær mínútur rokið og fuku út í loftið. Hún tók ekkert eftir því þegar þulurinn stöðvaði keppnina. Hún heyrði heldur ekki köll dómaranna, áhorfendanna eða hundagjammið í kringum sig. Hún sá bara blátt tjald sem fauk með ógnarhraða í áttina til þeirra.

Það var útilokað að þau kæmust í tæka tíð í burtu. Stóðhesturinn byrjaði að titra. Á hægri hönd var öflugt trégrindverk. Hún ætlaði að hvetja hestinn áfram, en hann svaraði ekki hvatningunni. Beint fyrir framan þau skall tjaldið á grindverkið og stangirnar festust í því, þannig að blátt tjaldið flaksaðist til og frá.

Hesturinn hennar fnæsti og hörfaði aftur á bak. Hann bjó sig undir að taka stökk, á meðan hún reyndi að draga athygli hans frá grindverkinu og flaksandi tjaldinu.

„Rólegur“ sagði hún en rödd hennar var allt annað en róleg. Hann snéri öðru eyranu í áttina til hennar. Og þó hann langaði mest til að hlaupa í burtu frá þessu öllu saman, stóð hann kyrr. Hún fann rigninguna bylja á húð sinni og einnig hversu máttlaus hún var orðin í hnjánum.

Hún fór varlega af baki og strauk honum um hálsinn. Síðan tók hún utan um hálsinn á honum. Hann var rennandi blautur og hún líka. Hann leyfði henni að halda utan um sig.

Samband þeirra varð alltaf betra og betra eftir því sem á leið!


„Þú ert alveg einstakur,“ sagði hún og í þetta sinn meinti hún hvert einasta orð. Með þessum orðum var hún ekki að meina hæfileika hans sem reiðhests, frábæra ættartölu eða önnur gæði, heldur tenginguna sem hún fann að hafði myndast milli þeirra. „Þetta var frábært hjá þér karlinn minn. Nú brástu rétt við.“

Daginn eftir þegar þau voru inn á vellinum í Futurity töltgreininni, fann hún að hesturinn var með hugann hjá henni og hlustaði á hana. 

Eftir þetta atvik kom það einstaka sinnum fyrir, að hann lét ekki strax ná sér úti á túni. Hann varð aðeins fá að leika sér að henni eins og hann hafði áður gert. En oftast nær kom hann beint til hennar, þegar hún var við hliðið og kallaði til hans.

Nú var hún farin að taka honum eins og hann var. Stundum var hún litin hornauga af hinum knöpunum, þegar hann var með einhverja stæla við hana. Hún var ekki eins ströng við hann og henni hafði verið kennt að vera í samskiptum við hross. Það hafði góð áhrif á samband þeirra sem varð alltaf betra og betra eftir því sem á leið.

Og það mikilvægasta af öllu var, að nú vissi hún, að hún gat treyst hestinum sínum þegar mikið lá við!


Gwendolin Simper

Þýtt úr þýsku

Passar við þessa sögu:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Senda inn sögu:

Á þessari vefsíðu er ætlunin að bjóða upp á breitt úrval af sögum og frásögnum af hestum úr öllum áttum.

Við leggjum áherslu á listræna hönnun síðunnar þar sem samspil texta og mynda gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Þar af leiðandi gætum við þurft að gera einhverjar breytingar á innsendu efni. Hins vegar verða engar breytingar gerðar nema með samþykki viðkomandi aðila. Áður en sagan er birt á vefsíðunni er hún send til höfundarins til yfirlestrar og ekki birt fyrren búið er að fá samþykki viðkomandi fyrir breytingunum.

PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR
SAGAN ÞÍN

Best er að þú vistir textann þinn sem World skjal og sendir það ásamt myndum í viðhengi tölvupóstins til okkar. Athugið að senda aðeins inn myndir sem má nota á internetinu eða myndir sem þið eigið höfnundaréttin að.

upplýsingar um söguna