Fæðingar eins og sú sem ég varð vitni að hjá Hjaltlandseyjahryssunni okkar eru sem betur fer afar sjaldgæfar hjá Íslenska hestinum. Samt sem áður held ég að það sem ég upplifði í sambandi við þessa fæðingu eigi erindi til allra hryssueigenda. Það er betra að vera vel upplýstur um þau vandamál sem geta borið að svo hægt sé að bregðast rétt við þeim. Oft á tíðum eru það aðeins nokkrar mínútur sem ráða úrslitum um hvort folaldið lifir fæðinguna af!
Við vorum að bíða eftir fyrsta folaldi hryssunnar „Tinkerbell“ sem er af kyni dvergsmáhesta frá Hjaltlandseyjum. Meðgangan hafði varað mun lengur en eðlilegt gæti talist, þess vegna fylgdumst við með henni allan sólarhringinn með eftirlitsmyndavél.
Tinkerbell var komin u.þ.b. þrjár vikur framyfir þann dag sem við töldum að hún myndi kasta, þegar ég rakst á Facebókar-færslu frá einni vinkonu minni um fæðingarerfiðleika hjá smáhestum. Þar lýsti hún mjög erfiðri fæðingu hjá einni hryssunni sinni og að hún væri ákveðin í því að rækta ekki aftur með henni. Ég var mjög sleginn yfir færslunni og fór strax að googla á hverju við gætum átt von á með Tinkerbell.
Á einni af fyrstu síðunum sem ég heimsótti var lýsing á „Red bag (rauði pokinn)“ fæðingu. Ég hafði aldrei heyrt talað um þetta fyrirbæri áður og las greinina með athygli. Samt reyndi ég að beina öllum neikvæðum hugsunum á bug og hugsaði með sjálfri mér að hingað til hefði allt gengið vel hjá hryssunum mínum og af hverju ætti einmitt núna eitthvað að fara úr skorðum.
Næstu nótt tók biðin loks enda. Klukkan tvö um nóttina var Tinkerbell orðin ansi óróleg, svo ég hentist fram úr rúminu og stökk í vetrargallann minn. Á leiðinni út í hesthús var eins og það væri hvíslað að mér að koma við í eldhúsinu og taka með mér beittan hníf sem ég og gerði.
Þegar ég kom út í hesthús var hryssan komin með mikla hríðarverki. Ég beið hjá henni, en það leið drykklöng stund án þess að nokkuð gerðist. Síðan fór skyndilega allt af stað. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Við mér blasti fyrirbærið „The red bag“ eða rauði pokinn nákvæmlega eins og ég hafði séð það fyrri daginn á youtube vídeói. Fylgjan eða rauði pokinn lokaði fæðingarveginum svo ef ekki yrðu höfð hröð handtök þá myndi folaldið kafna.
Það var eins og ég væri dáleidd. Ég ýtti myndavélinni í burtu og fór að gera nákvæmlega það sem ég hafði séð nokkrum klukkustundum fyrr á youtube vídeóinu. Ég greip hnífinn og stakk á rauða pokann. Þá kom strax líknarbelgurinn í ljós og fljótlega fór að sjást í framfætur folaldsins og snoppuna sem var farin að verða blá á litinn.
Ég hjálpaði svo hryssunni og studdi eftir bestu getu í hríðarköstunum. Mér fannst sem það liði óralangur tími en í rauninni tók sjálf fæðingin bara 5 mínútur. Þetta var lítið merfolald sem fékk nafnið Sunny. Sunny litla var eldhress og spræk en hins vegar vorum við mamma hennar alveg búnar að vera eftir átökin.
Þegar allt var yfir staðið reyndi ég að hringja í dýralækni. En á mínum heimaslóðum er erfitt að ná í dýralækni seint á kvöldin eða á nóttunni. Klukkan var nefnilega orðin hálf þrjú.
Að lokum gat ég náð í dýralækni á dýraspítala í Vínarborg. Hann virtist mjög hissa á því að folaldið skyldi lifa fæðinguna af.
Tinkerbell átti erfitt með að standa á fætur svo litla dóttir hennar gæti komist á spena. En eftir nokkrar tilraunir tókst það hjá henni.
Þann 16. maí 2018 héldum við svo upp á fyrsta afmælisdag Sunny litlu ásamt móður hennar.
Hekla Hattenberger Hermundsdóttir
Þýtt úr þýsku