1. HLUTI: UPPGÖTVUN WILHELMS VON OSTEN

Wilhelm von Osten ásamt undrahestinum Klóka Hans árið 1904. Mynd/E. Rendich.

Ég hef oft velt því fyrir mér, þegar ég sé hesta framkvæma ótrúlegustu hluti á hestasýningum, hvernig var eiginlega hægt að kenna þeim þetta og hvar liggja mörkin. Mínum hestum hef ég ekki kennt annað en nauðsynlegustu „umgengnisreglur“ og bendingar til að geta notið þeirra m.a. í reiðtúrum. Eigi að síður hef ég lengi haft áhuga á atferli og sálarlífi hrossa. Samspil hinna svonefndu hestahvíslara og hrossa hefur oft og iðulega vakið ómælda aðdáun mína.

Nýlega rakst ég á mjög áhugaverða frásögn um hest og eiganda hans sem toppar allt sem ég hef séð, heyrt eða lesið um. Ég var svo heltekin af þessari frásögn að ég hætti ekki fyrr en ég var búin að skoða allt efni sem ég gat komist yfir um hrossið.

Og ég er ekki sú eina sem átti erfitt með að trúa því sem ég las, því hesturinn „Klóki Hans“ eða “Kluger Hans“ eins og hann hét á þýsku og eigandi hans Wilhelm von Osten voru á allra vörum í Berlínarborg árið 1904.

Þó íslenskir hestar séu ekki í aðalhlutverki í þessari frásögn, finnst mér efni hennar mjög áhugavert og eiga erindi til lesenda HestaSögu. Ég hef tekið saman grein um hestinn „Klóka Hans“ sem birtist í tveimur hlutum hér á HestaSögu!


Hesturinn Hans og hugmyndir herra Osten

Svo virðist sem kveikjan að áhuga Wilhelms von Osten á hugrænum hæfileikum og greind hrossa hafi komið til vegna kynna hans á hesti, sem hann keypti 7 vetra árið 1888 og nefndi Hans.

Herra Osten bjó í Griebenowstrasse 10, sem liggur í norðurhluta Berlínar í nágrenni við Prenzlauer Berg. Í bakgarði á fimmhæða húsi sem hann bjó í hafði hann aðstöðu fyrir hestinn. Í þá daga var hestahald í stórborgum ekki óalgengt þó það væri frekar sjaldgæft að hinn almenni borgari ætti hest í bakgarði sínum svo að segja í miðborg Berlínar eins og herra Osten.

Eitt sinn er herra Osten var að koma heim frá því að sinna erindum sínum, tók hann eftir því, að hrossið af sjálfsdáðum og án utanaðkomandi bendinga tók uppá því að taka stóran sveig á götunni til að koma léttikerrunni ólaskaðri inn um þröngt hlið á bakgarði hússins.

Herra Osten var sannfærður um að þetta atvik bæri vísbendingu um að hross hefðu hugræna hæfileika. Hann var heltekinn af uppgötvun sinni og staðráðinn í að leita eftir frekari sönnunum þessu til staðfestingar.


„Kennslustundir“ herra Osten

Það mun hafa verið í kringum 1890 sem herra Osten fór að kenna hestinum ýmis hugtök. Við þetta notaði hann ekki ósvipaðar aðferðir og notaðar eru til að kenna ungbörnum að tala.

„Hans, þetta er hægri!“ Mynd/Karl Krall (1863-1929).
Engar myndir eru til af hestinum Hans sem fjallað er um í þessum texta, en hér má sjá Klóka Hans í læri hjá herra Osten.


Hann byrjaði á að fá hestinn til að læra muninn á hægri og vinstri með því að lokka höfuð hestsins til hliðar með gulrót, brauðbita eða sykurmola um leið og hann endurtók í sífellu:


„Hans, þetta er hægri“ eða „Hans, þetta er vinstri“ eftir því sem við átti.


Fljótlega bætti hann við fleiri hugtökum svo sem upp og niður, áfram og stöðva.


Að lokum útfærði hann æfingarnar í hreyfingu, þannig að hann gat þannig framkallað ákveðin viðbrögð hjá hestinum með röddinni einni.


„Hans, beygðu til vinstri!“

Til er frásögn af því þegar herra Osten var á ferð með háttsettan liðsforingja sér við hlið í vagninum og mun hafa sagt við hann:

„Major Keller, nú ætla ég að sýna yður hvað Hans minn er fær um að gera!“ Hann festi taumana við vagninn og gaf hestinum bendingar með röddinni einni:


„Farðu til hægri Hans! Hans, beygðu inn götuna til vinstri! Brokkaðu! Stoppaðu!“

Þessar og aðrar svipaðar skipanir gat Hans skilið og brugðist við þeim á réttan hátt. En áðuren herra Osten hafði lokið ætlunarverki sínu fékk hesturinn slæma garnaflækju og drapst aðeins 12 vetra gamall, gamla manninum til mikilla rauna.

En herra Osten gafst ekki upp og dreymdi áfram stóra drauma um að sýna umheiminum fram á greind hrossa.

Framhald næstu viku

Hans, hvar er hægri!“ Mynd/Karl Krall (1863-1929)
Klóki Hans sýnir með því að teygja hálsinn til hliðar hvoru megin hægri er.



HEIMILDIR:

Texti og allar myndir úr bók eftir Karl Krall, Denkende Tiere, Leipzig 1912.

Passar við þessa sögu:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Senda inn sögu:

Á þessari vefsíðu er ætlunin að bjóða upp á breitt úrval af sögum og frásögnum af hestum úr öllum áttum.

Við leggjum áherslu á listræna hönnun síðunnar þar sem samspil texta og mynda gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Þar af leiðandi gætum við þurft að gera einhverjar breytingar á innsendu efni. Hins vegar verða engar breytingar gerðar nema með samþykki viðkomandi aðila. Áður en sagan er birt á vefsíðunni er hún send til höfundarins til yfirlestrar og ekki birt fyrren búið er að fá samþykki viðkomandi fyrir breytingunum.

PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR
SAGAN ÞÍN

Best er að þú vistir textann þinn sem World skjal og sendir það ásamt myndum í viðhengi tölvupóstins til okkar. Athugið að senda aðeins inn myndir sem má nota á internetinu eða myndir sem þið eigið höfnundaréttin að.

upplýsingar um söguna