Eftir að goðin höfðu lokið við að byggja upp bæði Miðgarð og Valhöll birtist einn góðan veðurdag í Ásgarði smiður nokkur, sem gerði goðunum gott tilboð.
Smiðurinn bauðst til að byggja varnarmúr hringinn í kringum Ásgarð, sem væri svo rammgerður og hár að hrímþursar og aðrir jötnar kæmust ekki yfir hann. En þá voru æsir ekki búnir að reisa neina víggirðingu kringum heimilis sitt. Kvaðst smiðurinn geta reist varnarmúrinn á einu og hálfu ári. Að launum vildi hann fá frjósemisgyðjuna Freyju og í ofanálag sólina og tunglið!
Eftir að goðin höfðu fundað saman, ákváðu þau að taka boði smiðsins, þó með þeim skilmálum að varnarmúrinn skyldi klárast á einum vetri og smiðurinn yrði að vera einn að verki. Væri múrinn ekki tilbúinn fyrsta dag sumarsins, myndi samkomulagið ógildast og smiðurinn fengi ekki vinnulaunin sín.
Smiðurinn hugsaði sig stutta stund um og bað síðan æsina um að fá að nota hestinn sinn Svaðilfara við verkið. Goðin settust aftur að rökstólum og að lokum var það Loki sem fékk þau til að taka þessu boði.
Fyrsta dag vetrarins hóf smiðurinn vinnu sína. Hann hlóð múrinn að deginum en á nóttunni safnaði hann risastórum steinum, sem hann lét Svaðilfara draga að Ásgarði.
Goðin voru mjög hissa á því hversu mikið magn steina hestinum tókst að flytja. Tíminn leið og múrinn stækkaði ört og varð að lokum svo hár að ekki einu sinni jötnar komust yfir hann.
Er aðeins voru þrír dagar eftir til sumarsins var smiðurinn svo að segja búinn með verkið. Goðin urðu nú mjög óróleg og veltu því fyrir sér hver væri eiginlega ábyrgur fyrir því að goðin gengu að skilmálum smiðsins. Þau óttuðust að nú myndu þau tapa hinni ástsælu Freyju og að himinhvolfið myndi missa fegurð sína þegar bæði sólin og tunglið hyrfu af braut.
Það leið ekki á löngu þar til Loki var fundinn sekur. Goðin ákváðu að drepa Loka nema ef hann skyldi finna leið til að koma í veg fyrir að smiðurinn gæti staðið við samninginn. Loki sem nú var skíthræddur um líftóru sína lofaði þeim að finn lausn á vandanum.
Sama kvöld er Svaðilfari var að draga síðustu steinana að Ásgarði, skokkaði skyndilega hryssa í veg fyrir hann og hneggjaði glaðlega. Og áhrifin létu ekki á sér standa, því Svaðilfari varð á augabragði ástfanginn upp fyrir haus og hafði ekki lengur hugann við verkefni sitt. Hann sleit sig lausann og stökk á eftir hryssunni í átt að skóginum með smiðinn á eftir sér.
Þannig leið nóttin í eintómum eltingarleik við hvert annað, bæði hrossin og smiðurinn á eftir þeim.
Næsta dag var Svaðilfari örmagna eftir ævintýri næturinnar og því sóttist vinnan frekar hægt. Þegar smiðurinn gerði sér ljóst að hann myndi ekki geta uppfyllt samninginn gekk hann berserksgang og feldi niður dulargervi sitt.
Þá gerðu goðin sér grein fyrir að smiðurinn var í rauninni bergjötunn sem hafði villt á sér heimilidir. Því sáu þau ekki ástæðu til að bíða til miðnættis og riftu þegar í stað samningnum. Síðan kölluðu þau á þrumuguðinn Þór sem kom í hvelli með hamarinn sinn Mjölni. Með hamrinum mölbraut Þór höfuð bergrisans.
Nú kom einnig í ljós að hin leyndardómsfulla hryssa sem bjargaði goðunum var enginn annar en Loki í dulargervi.
Samfundir Svaðilfara og Loka báru ávöxt og hinn áttfætti grái hestur Sleipnir varð til, sem var allra hesta bestur og fljótastur í mann- og goðheimum. Þennan hest færði Loki síðar Óðni að gjöf.