Tvíburafæðingar hjá hrossum eru afar sjaldgæfar og má líkja því við kraftaverk, ef bæði folöldin fæðast lifandi og komast á legg. Í eftifarandi frásögn frá árinu 1805 greinir frá slíku tilviki, þar sem hryssa kastar tvíburafolöldum í vitlausu veðri að vori til á Austurlandi.
Folöldin alast upp saman og verða mjög samrýmd eins og við er að búast. Þegar annað hrossið lendir í sjálheldu deyr hitt ekki ráðalaust á meðan …


Hreppur og Stjóri, svo hétu hestar tveir, sem afi minn síra Vigfús Ormsson, átti. Nöfnin eru þannig til komin, að þegar afi minn var prestur á Valþjófstað, gjörði eitthvert sinn mjög mikið áfelli að vori til. 

Það vantaði hryssu fylfulla og töldu menn hana af, en hreppstjórinn þar í sveitinni fann hana með tveim folöldum, sem hún hafði kastað í bylnum. Afa mínum þótti mjög vænt um þetta, því merin var eitt af uppáhalds hrossunum hans.


Hann var, eins og venjulega, vel heybyrgur, tók hana á hús og töðueldi, svo hún gæti mjólkað folöldunum.


Hann lét þau heita, til minningar um hreppstjórann og þennan atburð, Hreppur og Stjóri í höfuðið á honum.


Folöldin voru ávallt alin upp saman og urðu hestarnir síðan svo samelskir, að hvorki bönd eða hús héldu þeim, ef átti að skilja þá.


Þegar móðir mín var á 15. eða 16. ári, fékk hún að fara á grasafjall með  vinnukonunum og fór fjósakarlinn með þeim, til þess að binda upp á og fara með hestana.


Þau lágu við tjald, langt frá byggð. Einhvern morgun, skömmu eftir að þau voru komin í tjald og sofnuð, kom Hreppur heim að tjaldi og hneggjaði ákaft. Karlinn vaknaði og reyndi hvað eftir annað að rekan hann burt, en það tjáði ekki. Móðir mín, sem sofnað hafði fast, eins og unglingum er gjarnt, þegar þeir eru þreyttir, vaknaði loksins.


Þegar hún hafði heyrt hvað um var að vera, hugsaði hún undir eins að þetta væri ekki einleikið og skipaði karli að fara eftir hestinum, en hann var tregur til þess, því hann var syfjaður og nöldraði mikið. Samt fór hann að lokum.


Þegar hesturinn sá, að karl var búinn til vegs, tók hann á rás og leit stöku sinnum við og hneggjaði til karls, eins og hann væri að herða á honum að flýtas sér. Loksins tók Hreppur sprett og nam staðar á sléttri grund og hneggjaði vingjarnlega ofan í jörðina. Þegar karl kom þar að, sá hann Stjóra niðri í holu.


Hafði jörðin sprungið undan honum, af því vatn hafði grafið undir jarðveginn. Karlinn sótti því næst kvenfólkið og bönd, og drógu þau hestinn upp úr og sagði móðir mín sáluga, að þau vinalæti, sem hestarnir sýndu hvor öðrum, eftir að Stjóri var kominn upp úr gryfjunni hefðu verið líkust því, þegar maður heimtir vin sinn, eins og úr helju.


Jón Guttormsson


Upprunalegur titill: „Hreppur og Stjóri“. Dýravinurinn, 3. árgangur 1889, 3.tbl.,bls. 41.

Textinn hefur verið lítilsháttar aðlagaður að nútíma máli og stafsetningu.


Passar við þessa sögu:

TVÍBURAFÆÐINGAR HJÁ HROSSUM

Tvíburafæðingar hjá hrossum eru afar sjaldgæfar og telst það til merkisviðburða þegar slíkt gerist. Ástæðan mun vera að legkaka hryssna er aðeins gerð til að næra eitt fóstur per meðgöngu og því deyr annað eða bæði fóstrin oftast nær mjög snemma á meðgöngunni

LESA MEIRA

FJALLAGRÖS (CATRARIA ISLANDICA)

Áður fyrr voru fjallagrös (Catraria islandica) drjúg búbót á mörgum íslenskum sveitaheimilum. Allt frá tímum landnáms á Islandi voru þau metin til hlunninda á jörðunum.

LESA MEIRA

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Senda inn sögu:

Á þessari vefsíðu er ætlunin að bjóða upp á breitt úrval af sögum og frásögnum af hestum úr öllum áttum.

Við leggjum áherslu á listræna hönnun síðunnar þar sem samspil texta og mynda gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Þar af leiðandi gætum við þurft að gera einhverjar breytingar á innsendu efni. Hins vegar verða engar breytingar gerðar nema með samþykki viðkomandi aðila. Áður en sagan er birt á vefsíðunni er hún send til höfundarins til yfirlestrar og ekki birt fyrren búið er að fá samþykki viðkomandi fyrir breytingunum.

PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR
SAGAN ÞÍN

Best er að þú vistir textann þinn sem World skjal og sendir það ásamt myndum í viðhengi tölvupóstins til okkar. Athugið að senda aðeins inn myndir sem má nota á internetinu eða myndir sem þið eigið höfnundaréttin að.

upplýsingar um söguna