HVERNIG KÖTTURINN REDDAÐI MÉR OG ÉG REDDAÐI KETTINUM

Innikötturinn Ozzy sem átti að svæfa. Mynd/Rebecka Frey

Ég stóð hreyfingarlaus með sprautuna í hendinni. Fyrir framan mig er grábröndóttur köttur sem stígur niður fótunum til skiptis og malar. Hann strýkur höfðinu vinalega við hönd mína, sem heldur á sprautunni með svæfingarlyfinu.  Mér líður alveg hræðilega. Ég get ekki fengið mig til að svæfa kisuna. Ég kem aldrei til með að venjast því að þurfa að svæfa dýr, þó það tilheyri starfi mínu sem dýralæknir.

Í hasti hugsa ég um það hvernig ég geti bjargað kettinum. Það á að svæfa hann, af því að kisi, sem er inniköttur úr stórborginni, var farinn að míga á óviðeigandi stöðum í íbúð eiganda sinna. Þegar hann byrjaði að pissa í rúm kornabarns fjölskyldunnar var mælirinn fullur og eigendur hans ákváðu að láta aflífa hann.

Stina sem er góð vinkona mín og móður minnar, hefur oft tekið að sér dýr sem enginn vildi eiga. Ég var næstum viss um að hún myndi taka köttinn upp á sína arma og veita honum skjól.

Stina bjó á fallegum stað út á landi ásamt stórum hópi af hundum, sem hún hafði tekið að sér í gegnum tíðina. Skömmu áður hafði ég þurft að svæfa kött sem hún átti.

 „Þetta var síðasti kötturinn sem ég eignaðist um ævina. Næsti köttur mun lifa mig og þannig á það ekki að vera,“ sagði Stina sorgmædd og átti greinilega erfitt um mál.

Ozzy breytti háttarlagi sínu eftir að hann fékk að fara út. Mynd/Rebecka Frey

Ég vissi að ef kisi fengi að fara út í náttúruna þá myndi hátterni hans breytast. Oft tengist þetta pissustand hjá köttum stressi sem myndast ef þeim líður ekki vel þar sem þeir búa.

Samtalið við Stinu var stutt og fór á þann veg sem ég hafði gert ráð fyrir. Stina myndi aldrei segja nei, ef hún sæi einhvern möguleika á að bjarga lífi dýrs. Einnig var lítil hætta á því að Ozzy, en svo hét kötturinn, myndi lifa Stinu af, því hann var orðinn 9 ára gamall. Sama dag flutti Ozzy út á land til Stinu.

Í hvert skipti sem ég reið framhjá húsinu hennar og stoppaði til að spjalla við hana um daginn og veginn tjáði hún mér að Ozzy væri besti köttur sem hún hefði eignast.

„Ég er svo glöð yfir því að hann skyldi lenda hérna hjá mér. Hann er farinn að veiða mýs á fullu sem hann færir okkur daglega. Svo fer hann með mér í göngutúra með hundana. Hann er besti köttur í heimi og besti vinurinn sem ég hef átt,“ segir Stina brosandi.

Ozzy var fljótur að komast uppá lagið með að veiða mýs. Mynd/Rebecka Frey

Nokkrum dögum síðar leið mér andlega ekki vel, þar sem ég var að ganga í gegnum mjög erfiðan skilnað. Ég varð að flytja með stuttum fyrirvara út úr húsinu okkar og nú bjó ég um stundarsakir í íbúð í stórborginni. Ég er hins vegar ekki borgarbarn og þráði að komast aftur út á land þar til hestana minna, þar sem ég get farið með hundinn minn Smillu í göngutúra án þess að hafa hana í ól.

Skyndilega sá ég fasteignaauglýsingu sem kom mér kunnuglega fyrir sjónir. Stina var búin að setja húsið sitt á sölu. Frá húsinu er alveg einstaklega fallegt útsýni yfir vatnið og það stendur á frábærum stað beint við hliðina á hesthúsinu mínu. Ég var mjög spennt, því þetta var nákvæmlega það sem ég var að leita að og þar sem ég vil búa það sem eftir er ævi minnar. Ég fann það á mér að þetta væri rétti staðurinn fyrir mig… en hvernig átti ég að útvega peninga fyrir eigninni?

Skilnaðurinn var ekki genginn í gegn og ég vissi að það yrði hörð barátta að fá minn skerf úr skilnaðinum. Ég fór að reikna út hvað mér tækist að safna saman stórri fjárhæð. Ég komst fljótlega í raun um að ég þyrfti að selja nokkur unghross sem ég átti og taka bankalán fyrir restinni. Þá myndi þetta kannski ganga upp hjá mér.

Ég var samt með hnút í maganum þegar ég íhugaði, af hverju Stina hafði ekki nefnt það við mig að hún ætlaði að selja eignina sína. Hún hefði mátt búast við því, að ég hafði áhuga á að kaupa.

Ég ákvað því að senda inn tilboð rétt eins og allir aðrir sem höfðu áhuga á eigninni án þess að vera í sambandi við hana áður.

Ozzy á sófanum „sínum“. Mynd/Rebecka Frey

Verðið á eigninni fór fljótt hækkandi, en með góðri aðstoð bróður míns og aukaláni í banka tókst mér að halda í við hina meðbjóðendur mína þar til að lokum var ég var með hæsta tilboðið. Ég var yfir mig hamingjusöm, þar til allt í einu kom nýr meðbjóðandi. Þessi aðili ætlaði sér greinilega að eignast húsið því hann yfirbauð öll tilboð frá mér 5 mínútum eftir að ég hafði sent inn mitt. Ég gerði mér grein fyrir því að þarna var einhver kominn sem átti nóg af peningum og að ég átti fjárhagslega ekki sjens í.

Ég hringdi því hálfkjökrandi í bróður minn og spurði hann hvað ég eigi að taka til bragðs. Bróðir minn reyndi að hughreysta mig eftir bestu getu. Síðan segi ég hálfvonlaus við hann: „Mitt síðasta úrræði er að hringja í Stinu og bjóðir henni 50.000 krónur (sænskar) undir borðið og taka að mér köttinn. Kannski gengur hún þá að tilboðinu.“

Við ræðum þetta fram og aftur. Hugsanlega gæti slíkt tilboð orðið til þess að Stina verði móðguð og þá væri þetta búið hjá mér. Sú hugsun læddist einnig að mér að kannski vildi Stina af einhverjum ástæðum ekki selja mér húsið.

Á meðan ég er að ræða þetta við bróður minn hringir síminn. Ég sé á númerabirtinum að Stina er að hringja og ég bið hann að hinkra við. Stina spyr mig hvernig ég hafi það. Ég segi henni hálfgrátandi að ég sé mjög hrygg, því ég geti ekki yfirboðið síðasta tilboðið í fasteignina.

Ozzy besti köttur í heimi. Mynd/Rebecka Frey

Þá heyri ég hvernig rödd Stinu verðu klökk og hún segir: „ Ef þú ert tilbúinn til að taka að þér köttinn þá færð þú húsið og landið með. Ég vil að Ozzy fái að búa áfram í húsinu með þér!“

Þannig eignaðist ég besta kött í heimi sem hefur líklega ekki hugmynd um á hvaða hátt hann bjargaði mér og hvernig ég fékk að verða eigandi hans og búa í húsinu hans á fallegu landareigninni hans!

Hann sýnir mér þakklæti, einlæga ástúð og hlýju sitt í hvert skipti sem ég fer á fætur á nóttinni og opna fyrir honum hurðina. Hann færir mér litlar mýs og hringar sig svo malandi til svefns á maganum á mér.

Hér hafa tveir sálufélagar fundið hvorn annan. Annar þeirra hefur mjúkar loppur og falleg græn kattaraugu. Honum hefur tekist hægt og sígandi að lækna brotna mannssál, eins og köttum einum er lagið.

Rebecka Frey

þýtt úr þýsku

Fressinn Ozzy. Mynd/Rebecka Frey

Passar við þessa sögu:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Senda inn sögu:

Á þessari vefsíðu er ætlunin að bjóða upp á breitt úrval af sögum og frásögnum af hestum úr öllum áttum.

Við leggjum áherslu á listræna hönnun síðunnar þar sem samspil texta og mynda gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Þar af leiðandi gætum við þurft að gera einhverjar breytingar á innsendu efni. Hins vegar verða engar breytingar gerðar nema með samþykki viðkomandi aðila. Áður en sagan er birt á vefsíðunni er hún send til höfundarins til yfirlestrar og ekki birt fyrren búið er að fá samþykki viðkomandi fyrir breytingunum.

PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR
SAGAN ÞÍN

Best er að þú vistir textann þinn sem World skjal og sendir það ásamt myndum í viðhengi tölvupóstins til okkar. Athugið að senda aðeins inn myndir sem má nota á internetinu eða myndir sem þið eigið höfnundaréttin að.

upplýsingar um söguna