Oft myndast sterk bönd milli hrossa og getur vináttan komið fram á ýmsa vegu.
Hekla Hattenberger Hermundsdóttir varð vitni að ótrúlegu atviki sem hún greinir okkur frá í eftirfarandi frásögn um vináttu tveggja hryssna á Íslandi.
Eitt óvenjulegasta atvik sem ég man eftir að hafa orðið vitni að, upplifði ég með hryssunni Lukku frá Víðihlíð, fallegri dökkjarpskjóttri hryssu sem var í eigu kunningjafólks míns.
Atvikið sem ég ætla að lýsa gerðist fyrir nokkrum árum meðan ég bjó ennþá á Íslandi. Dóttir hryssueigandans kom tvisvar eða þrisvar á ári að heimsækja hryssuna en að öðru leyti hugsaði ég alveg um hrossið.
Þegar Lukka var tveggja vetra hélt hún sig mikið með annarri hryssu sem hét Stjörnudís frá Ægissíðu, sem þá var fimm vetra og fylfull. Ég og eigandi Stjörnudísar vorum orðnar mjög spenntar fyrir fæðingunni og ætluðum sko ekki að missa af henni! Við eyddum því mörgum nóttum, svefnlausar út á túni hjá hryssunum til að venja stóðið við viðveru okkar.
Loksins kom svo að því að fæðingin fór af stað. Það var nóttina eftir að hljómsveitin Vinir Sjonna kepptu í Eurovision 2011 fyrir hönd Íslands. Stjörnudís var orðin óróleg og við komum okkur því fyrir á góðum stað, þar sem við gátum fylgst nákvæmlega með öllu, en samt í það hæfilegri fjarlægð að við trufluðum ekki hryssuna.
Það er alltaf mjög sérstök reynsla að upplifa fæðingar, en það sem við áttum eftir að fá að sjá þessa nótt toppaði allt sem við höfðum séð til þessa.
Þegar fæðingin fór af stað vék Lukka ekki frá hryssunni og passaði uppá að vinkona hennar fengi frið fyrir hinum hrossunum. Hún bæði beit og sló allar aðrar hryssur í stóðinu, sem reyndu að nálgast Dísu vinkonu hennar. Og þegar Stjörnudís lagðist niður með rembingshríðir stóð Lukka yfir henni og lagði kollhúfur til allra sem voguðu sér nálægt þeim. Hún þefaði af vinkonu sinni eins og hún vildi fullvissa sig um að allt væri í lagi með hana.
Fyrst í stað gekk fæðingin nokkuð fljótt og vel fyrir sig, en þegar komið að herðunum stoppaði allt. Það var eins og Lukka hefði líka gert sér grein fyrir því að málin höfðu vandast. Eftir að hún hafði beðið dágóða stund gekk hún skyndilega á bak við Stjörnudís, lyfti upp vinstri framfætinum og krafsaði með honum varlega á maga vinkonu sinnar. Við héldum niður í okkur andanum og vorum tilbúnar til að stökkva til og grípa inn í ef á þyrfti á að halda. En við ákváðum samt að bíða aðeins átekta.
Okkur virtist heil eilífð líða og ekkert gerðist. Folaldið virtist vera fast í fæðingarveginum – sem er náttúrulega ekki góð staða. En áðuren við vissum af brást Lukka aftur við og lagði fótinn ofaná búk Stjörndísar og var eins og hún væri að nudda magann á henni.
Síðan þrýsti hún með fætinum á magann. Hún endurtók það nokkrum sinnum eða þar til skyndilega að „stíflan“ losnaði og folaldið kom lifandi í heiminn. Hvort sem þetta var kraftaverk eða vegna aðstoðar hennar Lukku, þá endaði fæðingin farsællega án þess að við gripum inn í.
Við vorum fyrst í stað mjög hissa yfir þessari óvæntu upplifun, sem ég myndi sennilega ekki trúa, ef ég hefði ekki séð þetta með eigin augum.
Næsta hugsun hjá okkur var, að Lukka myndi reyna að stela folaldinu frá Stjörnudísi, en ekkert í þá áttina skeði. Við biðum þar til Sjonni en það var nafnið sem folaldið fékk, hafði náð að standa upp og komast á spena. Á meðan stóð Lukka hjá þeim og passaði uppá, að enginn úr stóðinu kæmi of nálægt.
Eftir þetta atvik hagaði Lukka sér ekki á annan hátt gagnvart Sjonna en öðrum hrossum í stóðinu. Ekki gat ég heldur séð að hún væri leið þegar Stjörnudís var seld og þær voru skildar í sundur. Hún var greinilega bara ljósmóðir af Guðs náð!
Lukka var mjög sérstök og ég átti margar góðar stundir með henni, en þessi upplifum í tengslum við fæðingu Sjonna er það eftirminnilegasta og mest spennandi sem ég man eftir með henni. Mér þótti mjög vænt um Lukku og ég var mjög sorgmædd að geta ekki keypt hana og tekið með mér þegar ég flutti til útlanda.
Lukka er nú komin út og er líka hér í Austurríki, ekki svo langt frá mér. Því miður hef ég ekki heimsótt hana ennþá. Ætli hún myndi þekkja mig aftur eða kannski er hún vondsvikin út í mig af því ég hvarf svo skyndilega úr lífi hennar. Ég mun allavegana aldrei gleyma Lukku.
Hekla Hattenberger Hermundsdóttir
Þýtt úr þýsku
IS2008255335 Lukka frá Víðihlíð
Fædd: 6. júní 2008
Faðir: Lykill frá Varmalandi
Ff.: Tígull frá Gýgjarhóli
Fm.: Síða frá Halldórsstöðum
Móðir: Drottning frá Uxahrygg
Mf.: óþekkt
Mm.: Díla frá Uxahrygg –